Gunnar Nelson stóð sig afar vel á ADCC mótinu sem fram fór í Nottingham á Englandi um síðustu helgi. Hann sigraði m.a. Marko Helen núverandi og tvöfaldan Evrópumeistara og margfaldan Finnlandsmeistara. Gunnar sótti stíft alla glímuna sem þó fór í tvöfalda framlengingu og endaði með nokkuð öruggum sigri Gunnars á stigum. Þá sigraði Gunnar einnig hinn brasílíska Bruno Frazzato sem er bæði núverandi Ameríkumeistari og Brasilíumeistari. Bruno er reyndar fjórfaldur Braslilíumeistari í sínum þyngdarflokki og heimsmeistari frá 2007. Gunnar hafði talsverða yfirburði í glímunni við Bruno og sótti stíft á hann en sigraði á stigum að lokum. Hvorki Marko né Bruno skoruðu nein stig á Gunnar né voru nálægt því. Í -88kg flokknum féll Gunnar naumlega út fyrir Andre Galvao sem bæði sigraði þyngdarflokkinn og opna flokkinn og var maður mótsins. Galvao skoraði stig á Gunnar þegar aðeins um 20 sekúndur voru eftir af glímunni. Gunnar tapaði einnig með minnsta mögulega stigamun fyrir sjálfum Alexandre “Xande” Ribeiro (6 földum heimsmeistara og tvöföldum ADCC meistara) sem er hátt í 20kg þyngri en Gunnar en Xande hafnaði í þriðja sæti í -99kg flokknum og í þriðja sæti í opna flokknum. Gunnar hlaut mikið lof fyrir frammistöðu sína á mótinu og Xande Ribeiro sagðist m.a. vona að hann þyrfti aldrei aftur að mæta Gunnari aftur á stórmóti. svo erfiður andstæðingur væri hann.
Mótinu hafa verið gerð ágæt skil í fjölmiðlum og hér má finna góða umfjöllun um gengi Gunnars á Mjölnisvefnum.