Íslenskir keppendur úr Mjölni, þau Sigrún Helga Lund og Pétur Jónasson, unnu til tveggja gullverðlauna í brasilísku jiu-jitsu (BJJ) á Alþjóðlega Opna Meistaramótinu í Róm (Rome International Open IBJJF Championship) sem fram fór í kvöld en mótið er á vegum Alþjóða BJJ Sambandsins (International Brazilian Jiu-Jitsu Federation). Gullverðlaunin unnu þau í sínum þyngdarflokki í flokki keppenda með blátt belti. Eiður Sigurðsson, einnig úr Mjölni, hlaut bronsverðlaun í sínum þyngdarflokki í hópi keppenda með fjólublátt belti. Þá hlaut Pétur Jónasson einnig silfurverðlaun í opnum þyngdarflokki keppenda með blátt belti. Sannarlega frábær árangur íslensku keppendanna úr Mjölni. Fleiri íslenskir keppendur tóku þátt en komust ekki á verðlaunapall. Nánari upplýsingar um Opna Rómarmótið má finna hér: http://www.ibjjf.org/
Mjölnismenn sigursælir á Rome Open
Á morgun fer síðan fram Opna evrópska meistaramótið í uppgjafarglímu (European Open NO GI IBJJF Championship) en það mót verður einnig í Róm og þar keppa 5 keppendur frá Mjölni. Þau Sigrún Helga Lund, Pétur Jónasson og Ómar Yamak keppa í flokki keppenda með blátt belti en þeir Eiður Sigurðsson og Aron Bjarnason keppa í flokki keppenda með fjólublátt belti.
Áhugasömum er bent á að fylgjast með fésbókarsíðu Mjölnis (http://www.facebook.com/Mjolnir.MMAclub ) til að fá nýjustu fréttir af íslensku keppendunum þegar þær berast.
Myndi hér að ofan er af þeim Sigrúnu Helgu Lund og Pétri Jónassyni með gullverðlaunin sín á palli í Róm í kvöld.