Tíu íslenskir keppendur úr Mjölni taka þátt í Opna Norðurlandameistaramótinu í Jiu Jitsu í Stokkhólmi um helgina. Tæplega sex hundruð keppendur eru skráðir til þátttöku í mótinu sem er svokallað Gi mót, en það þýðir að keppendur klæðast keppnisgalla (Gi) líkt og í Judo. Á Norðurlandameistaramótinu er bæði keppt í þyngdar- og styrkleikaflokkum en Íslendingar eiga einn keppenda í hæsta styrkleikaflokknum, flokki svartbeltinga, sem er Gunnar Nelson. Aðrir íslenskir keppendur eru þau Auður Olga Skúladóttir, Bjarni Kristjánsson, Bjartur Guðlaugsson, Hreiðar Már Hermannsson, Jóhann Helgason, Sighvatur Helgason, Sigurjón Viðar Svavarsson, Þráinn Kolbeinsson og Vignir Már Sævarsson.
Margir afar sterkir keppendur eru mættir til leiks á mótinu m.a. fyrrum Brasilíumeistari og silfurverðlaunahafi af Evrópumeistaramótinu 2008, Ricardo Oliveira, sem er með Gunnari í þyngdarflokki.