Aðalfundur BJÍ fór fram í húsnæði Mjölnis að Seljavegi 2 í gærkvöldi, þriðjudaginn 13. desember. Fráfarandi stjórn gaf skýrslu sína og lagði fram endurskoðaða reikninga Sambandsins og fjárhagsáætlun næsta árs. Líkt og áður hefur aðaláhersla stjórnar BJÍ legið í því að halda Íslandsmeistaramót í BJJ. Þá var unnið talsvert í dómaramálum og skipaðar nefndir innan BJÍ. Settar voru reglur um starfsfólk á mótum Sambandsins og mikið starf var unnið í kynninga- og upplýsingamálum, m.a. opnað nýtt vefsetur BJÍ sem og ný fésbókarsíða og fleira. Þau mál líkt og mörg önnur verða þó aldrei unnin að fullu og mikilvægt er að halda uppi stöðugri vinnu í þeim efnum.
Innan BJÍ starfa nú 6 íþróttafélög víðs vegar af landinu og iðkendur skipta hundruðum um land allt. Vel á annað hundrað keppendur tóku þátt á Íslandsmeistaramótum BJÍ á árinu 2011 en vinsældir íþróttarinnar fara stöðugt vaxandi, bæði á Íslandi sem og í nágrannalöndum. Þá stóðu íslenskir keppendur sig afar vel á erlendri grundu á árinu og unnu m.a. annars til 7 gullverðlauna á mótum erlendis svo fátt eitt sé nefnt.
Ný stjórn BJÍ og lagabreytingar
Á Aðalfundinum í gær var Haraldur Dean Nelson endurkjörinn formaður BJÍ. Aðrir stjórnarmenn BJÍ voru kjörnir þeir Björn Vilberg Jónsson, Björn Sigurðarson, Daníel Örn Davíðsson og Óli Haukur Valtýsson. Varamenn eru þeir Arnar Freyr Vigfússon, Guðmundur Stefán Gunnarsson og Pétur Marel Gestsson. Stjórn er kjörin til eins árs í senn. Sama á við um formann.
Þá voru m.a. samþykktar breytingar á lögum BJÍ á Aðalfundinum en þær höfðu verið sendar öllum aðildarfélögum BJÍ. Á fundinum var jafnframt lögð fram tillaga um að halda sérstakt liðamót aðildarfélaga Sambandsins og var nýrri stjórn falið að skoða það mál.