Lög BJJ Sambands Íslands (BJÍ)
1. gr.
Sambandið heitir BJJ Samband Íslands (BJÍ) og er æðsti aðili um öll mál er varða BJJ (Brasíliskt Jiu Jitsu) á Íslandi. Undir þetta flokkast jafnframt uppgjafarglíma (grappling og submission wrestling, Gi og No-Gi).
2. gr.
BJÍ er félagasamband og varnarþing er í Reykjavík. BJÍ er samband félaga, sem hafa iðkun BJJ innan sinna vébanda.
3. gr.
Tilgangur BJÍ er í meginatriðum:
a) Að hafa yfirumsjón allra íslenskra BJJ mála.
b) Að vinna að eflingu BJJ íþróttarinnar í landinu og að komast inn í héraðsambönd og gerast aðili að ÍSÍ.
c) Að koma fram erlendis fyrir hönd íþróttarinnar.
d) Að stjórna árlegu Íslandsmóti.
4. gr.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með eftirfarandi starfsemi:
a) Aðalfundi BJÍ
b) Starfi stjórnar BJÍ.
Aðalfundur BJÍ fer með æðsta vald í málefnum BJÍ. Aðalfund sitja fulltúar frá þeim aðilum, sem mynda BJÍ.
Fulltrúar einir hafa atkvæðisrétt á aðalfundi en aðildarfélag öðlast rétt á fulltrúa greiði það fullt árgjald. Aðildarfélagi ber skylda að tilkynna BJÍ um fullt nafn þess fulltrúa sem það sendir á aðalfund eigi síðar en degi fyrir aðalfund. Hafi aðildarfélag ekki rétt á fulltrúa ber því þó skylda að senda lágmark einn aðila á aðalfund sem hefur þar málfrelsi og tillögurétt.
Boða skal til aðalfundar með minnst 28 daga fyrirvara. Málefni sem sambandsaðilar óska að tekin verði fyrir á aðalfundi skal tilkynna stjórn BJÍ minnst 21 dögum fyrir hann. Þá skal stjórn BJÍ tilkynna sambandsaðilum dagskrá fundarins ásamt tillögum og lagabreytingum sem borist hafa í síðasta lagi 14 dögum fyrir hann, sem síðara fundarboð. Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað.
c) Standa að útgáfu fræðsluefnis um íþóttina sem nýtist öllum félögum sambandsins.
5.gr
Öll íþróttafélög sem iðka BJJ á Íslandi geta sótt um inngöngu í BJÍ. Umsóknir um inngöngu í BJÍ eru samþykktar á stjórnarfundum BJÍ.
6. gr.
Stjórn BJÍ skal skipuð 5 stjórnarmönnum: Formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera og meðstjórnanda.
Stjórnarmenn eru kosnir til eins árs í senn og eru þeir og formaður kosnir á aðalfundi. Stjórn er kosin bundinni leynilegri kosningu. Formaður er kjörinn í sér kosningu. Síðan eru kjörnir 4 aðrir aðalmenn í stjórn. Þá eru kjörnir allt að 3 varamenn. Stjórn skiptir með sér verkefnum á fyrsta stjórnarfundi almanaksárs ásamt því að skipa mótanefnd, dómaranefnd, aganefnd og landsliðsnefnd. Formaður boðar stjórnarmenn á stjórnarfund þegar þurfa þykir. Landsliðsnefnd velur landsliðsþjálfara ásamt stjórn BJÍ. Kostnaður vegna landsliðsæfinga greiðist af þeim félögum sem eiga menn í landsliðinu.
Daglega umjón BJÍ annast stjórnarmenn sambandsins.
7. gr.
Starfstímabil BJÍ er almanaksárið. Á aðalfundi sambandsins skal stjórn gera upp árangur liðins árs. Á aðalfundi BJÍ hafa fulltrúar einir atkvæðisrétt, en auk þeirra eiga rétt á fundarsetu og hafa þar málfrelsi og tillögurétt:
- Stjórn BJÍ.
- Fulltrúar BJJ félaga á Íslandi.
- Fastráðnir starfsmenn BJÍ.
- Allir nefndarmenn BJÍ.
8. gr.
Árgjald aðildarfélaga til BJÍ eru 40.000kr á hvert félag innan sambandsins. Ný og/eða minni aðildarfélög, með færri en 15 einstaklinga, geta sótt um lækkun á árgjaldi. Telur félag sig falla undir þá undanþágu skal það senda greinargóða umsókn til stjórnar BJÍ á bji@bji.is, sem tekur málið fyrir á stjórnarfundi.
9. gr.
Ákvörðun um að leggja BJÍ niður má aðeins taka fyrir á lögmætum aðalfundi BJÍ. Til þess að samþykkja þá tillögu, þarf minnst 3/4 hluta atkvæða. Hafi slík tillaga verið samþykkt skal gera öllum sambandsaðilum grein fyrir henni í fundargerð. Eignir BJÍ skulu þá renna til aðildarfélaga BJÍ.
10. gr.
Starf aðalfundar fer þannig fram:
1. Setning.
2. Kosning fundarstjóra og ritara.
3. Skýrsla stjórnar flutt.
4. Gjaldkeri leggur fram endurskoðaða reikninga sambandsins til samþykktar.
5. Stjórn leggur fram verkefna- og fjárhagsáætlun fyrir næsta ár.
6. Lagðar fram laga- og leikreglnabreytingar.
7. Lagðar fram aðrar tillögur og önnur mál sem borist hafa til stjórnar
HLÉ
8. Álit og tillögur og atkvæðagreiðslur um þær.
9. Önnur mál.
10. Kosning stjórnar, og endurskoðenda.
11. Fundarslit.
Einfaldur meirihluti ræður úrslitum, nema um lagabreytingar sé að ræða, þá þarf 2/3 hluta atkvæða viðstaddra fulltrúa.
Ársskýrslu BJÍ sem stjórnin skal leggja fjölritaða fyrir fundinn, svo og ágrip af fundargerð, skal senda sambandsaðilum BJÍ innan tveggja mánaða frá fundarlitum.
11. gr.
Lög þessi öðlast gildi, þegar stjórn BJÍ hefur staðfest þau.
Fyrst útgefin á stofnfundi 16. ágúst 2008.
Útgefin með breytingum:
– eftir 4. aðalfund BJÍ 13. desember 2011
Lög BJJ Sambands Íslands (BJÍ) samþykkt á aðalfundi 13. desember 2011.